„Sagan endurtekur sig“

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. AFP

Lars Lagerbäck hélt uppteknum hætti í gær þegar hann stýrði norska landsliðinu í sínum fyrsta leik.

Norðmenn töpuðu fyrir N-Írum, 2:0, í undankeppni HM í Belfast og möguleikar þeirra á að komast í lokakeppnina í Rússlandi á næsta ári eru hverfandi. Noregur er í fimmta sæti í riðlinum með aðeins 3 stig eftir fimm leiki. Þjóðverjar eru í efsta sætinu með 15 stig, N-Írar hafa 10, Tékkar 8 og Aserbaídsjan er í fjórða sætinu með 7 stig. Næsti leikur Norðmanna er heimaleikur á móti Tékkum þann 10. júní.

Í tíð sinni sem landsliðsþjálfari hefur hann aldrei fagnað sigri í fyrsta leik en Svíar töpuðu fyrstu þremur leikjunum undir hans stjórn og Íslendingar fyrstu fjórum leikjunum.

„Við náðum ekki að skapa okkur nein færi svo við vorum ekki góðir á síðasta þriðjungi vallarins. Sagan endurtekur sig. Ég hef aldrei unnið fyrsta leik með landslið svo hefðin lifir áfram,“ sagði Lagerbäck við fréttamenn á flugvellinum í Belfast í morgun.

Lagerbäck tókst fimm sinnum að koma Svíum á stórmót og sem kunnugt varð hann fyrsti þjálfarin til að koma Íslendingum á stórmót en undir stjórn hans og Heimis Hallgrímssonar tóku Íslendingar þátt í úrslitakeppni EM í Frakklandi á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert