Sigurmark Messi á síðustu sekúndu á Santiago Bernabéu

Casemiro sækir að Lionel Messi í Madrid í kvöld.
Casemiro sækir að Lionel Messi í Madrid í kvöld. AFP

Barcelona er komið á topp spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu eftir magnaðan sigur á Real Madrid, 3:2, á Santiago Bernabéu í Madríd í kvöld þar sem Lionel Messi skoraði sigurmarkið með síðustu spyrnu leiksins.

Hann gerði tvö markanna og það síðara sigurmarkið dramatíska, er hans 500. mark fyrir Barcelona á ferlinum.

Barcelona og Real Madrid eru nú bæði með 75 stig. Barcelona er með betri markatölu en Real á hinsvegar leik til góða.

Casimiro kom Real yfir á 28. mínútu leiksins, fylgdi þá eftir stangarskoti frá Sergio Ramos. Lionel Messi jafnaði fimm mínútum síðar eftir gott spil í gegnum vörn Real og sendingu frá Ivan Rakitic, 1:1 í hálfleik.

Rakitic kom Barcelona í forystu á 73. mínútu með glæsilegu skoti rétt utan vítateigs og fjórum mínútum síðar fékk Sergio Ramos, miðvörður Real, rauða spjaldið fyrir að brjóta gróflega á Messi.

En tíu leikmenn Real Madrid náðu að jafna metin og varamaðurinn James Rodríguez gerði það á 86. mínútu með viðstöðulausu skoti af markteig eftir sendingu Marcelo frá vinstri.

Allt stefndi í jafntefli en Messi skoraði sitt annað mark með síðustu spyrnu leiksins eftir glæsilega sókn og sendingu frá Jordi Alba, 3:2!

Markverðir liðanna voru mjög í sviðsljósinu í galopnum leik en þeir Marc-André ter Stegen hjá Barcelona og Keylor Navas hjá Real Madrid vörðu hvað eftir annað glæsilega í leiknum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

.

Real Madrid 2:3 Barcelona opna loka
90. mín. Lionel Messi (Barcelona) fær gult spjald Fær gula spjaldið fyrir að fara úr treyjunni!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert