„Ég sá Ramos benda á mig“

Gerard Pique.
Gerard Pique. AFP

Varnarmennirnir Gerard Pique hjá Barcelona og Sergio Ramos hjá Real Madrid hafa eldað grátt silfur í gegnum tíðina og einkum og sér í lagi undanfarnar vikur.

Ramos fékk að líta rauða spjaldið í viðureign Real Madrid og Barcelona í gærkvöldi þar sem Börsungar höfðu betur og Pique tjáði sig um það við spænska fjölmiðla að leik loknum.

Ramos benti í átt að Pique í gær eftir að hafa fengið rauða spjaldið fyrir grófa tæklingu á Lionel Messi og vildi eflaust með því meina að Pique hafi átt einhvern þátt í því.

Pique skrifaði færslu á Twitter á dögunum, meðan á leik Real Madrid og Bayern München í Meistaradeild Evrópu stóð, þar sem Madrídingar fengu margar ákvarðanir dómarans sér í vil.

„Ég er sannfærður um að hann muni átta sig á því að þetta var rautt spjald þegar hann fer heim og sér það aftur. Hann fer í tæklinguna með báða fætur á undan sér þegar Messi var að komast frá honum,“ sagði Pique um tæklinguna, sem var ansi harkaleg.

„Ég sá Ramos benda á mig eftir rauða spjaldið. En hann mun sjá eftir þessu þegar hann sér atvikið aftur. Þetta var klárt rautt spjald,“ sagði Pique.

Sergio Ramos og Lionel Messi í gær.
Sergio Ramos og Lionel Messi í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert