„Þetta verður að vera minna!“

Gögnin sem Spiegel hefur undir höndum eru fengin frá Football …
Gögnin sem Spiegel hefur undir höndum eru fengin frá Football Leaks. Athygli vekur hversu lítið hefur verið fjallað um málið í stærstu miðlum heims. AFP

Þýska blaðið Der Spiegel hefur undir höndum samskipti milli Cristiano Ronaldo og fulltrúa hans í samningaviðræðum við konu sem sakaði knattspyrnumanninn um nauðgun. Þá hefur miðillinn undir höndum samningsgögnin, þar sem kennsl eru borin á Ronaldo.

Gögnin sem Spiegel hefur undir höndum virðast afsanna fullyrðingar talsmanns Ronaldo, sem sagði fréttaflutning miðilsins af nauðgunarmálinu skáldskap.

Hin meinta nauðgun átti sér stað á Palms Place-hótelinu í Las Vegas sumarið 2009. Konan, nefnd Susan K í umfjöllun Spiegel, daðraði við Ronaldo, lét hann fá símanúmerið sitt og kyssti hann en sagði nei þegar hann vildi meira og aftur þegar hann þvingaði hana niður í rúm sitt.

Samningaviðræðurnar um skaðabætur til handa K áttu sér stað 12. janúar 2010, samkvæmt þeim gögnum sem Spiegel hefur undir höndum. Í smáskilaboðum til knattspyrnumannsins greinir lögmaður hans, Carlos Osório de Castro, honum frá því að stúlkan sé grátandi og að viðræður séu að hefjast um upphæðir.

Osório de Castro var viðstaddur viðræðurnar og virðist hafa átt í stöðugum samskiptum við Ronaldo til að halda honum upplýstum.

Susan K hefur ekki viljað tjá sig um málið við …
Susan K hefur ekki viljað tjá sig um málið við Spiegel enda má hún það ekki samkvæmt skaðabótasamningnum við Ronaldo. AFP

Fjörtíu og sjö mínútum eftir fyrstu smáskilaboðin berast Ronaldo önnur skilaboð. „950.000 dalir.“ „Er það upphæðin?“ svarar Ronaldo. Osório de Castro segir um að ræða fyrstu kröfu; jafngildi 660.000 evra. „Við samþykkjum þetta ekki. Viðræðurnar halda áfram,“ segir lögmaðurinn. „Er þetta of mikið?“ spyr Ronaldo. Lögmaðurinn svarar játandi, segist vilja ná upphæðinni niður. „Þetta verður að vera minna!“ heimtar Ronaldo.

Niðurstaðan voru 40 milljónir króna.

Bólga og sár við endaþarm

Í samningsgögnunum sem Spiegel birtir að hluta á vefsíðu sinni er vísað til Ronaldo undir dulnefninu Topher en í einu skjalanna er sérstaklega tekið fram að Topher sé Cristiano Ronaldo og Topher Co. fyrirtækið Multisports & Image Management Ltd., sem hefur höndlað með tekjur Ronaldo vegna auglýsinga- og styrktarsamninga.

Nokkru eftir að hin meinta nauðgun átti sér stað reit Susan K Ronaldo bréf þar sem hún lýsir atburðum og segir hann m.a. hafa nauðgað sér í endaþarm. Gögn sem Spiegel hefur undir höndum virðast renna stoðum undir fullyrðingar konunnar, sem tilkynnti lögreglu um nauðgunina sama dag og hún átti sér stað.

Í kjölfarið var hún flutt á heilbrigðisstofnun þar sem hún var skoðuð en rannsóknin leiddi í ljós bólgu og sár eða rifu við endaþarm. K fékk ávísað tveimur sýklalyfjum og var veitt ráðgjöf fyrir fórnarlömb nauðgana.

Við skoðunina gaf K ekki upp nafn Ronaldo en sagði gerandann frægan einstakling.

Susan K er sögð hafa óttast viðbrögð aðdáenda Ronaldo.
Susan K er sögð hafa óttast viðbrögð aðdáenda Ronaldo. AFP

Spiegel ræddi við Gloriu Allred, vel þekktan bandarískan lögmann, um mögulegar ástæður þess að K ákvað að stíga ekki fram og kæra Ronaldo en haft er eftir henni að oft sé sátt utan dómstóla besta lausnin fyrir báða aðila, þar sem þekkti einstaklingurinn vill ekki að málið komist í umræðuna og fórnarlömbin eigi oft litla möguleika gegn her lögmanna hins þekkta einstaklings.

Þá er í umfjöllun Spiegel vísað til ummæla lögmanns Susan K þar sem hún segir skjólstæðing sinn veigra sér við því að stíga fram þar sem hún óttist viðbrögð aðdáenda knattspyrnugoðsins.

Ronaldo hefur ekki tjáð sig um málið persónulega en í kjölfar fyrstu umfjöllunar Spiegel sögðu fulltrúar hans að honum hefði aldrei borist „meint“ bréf K. Í samningaviðræðunum gengu lögmenn hans hins vegar að því skilyrði að bréfið yrði lesið fyrir knattspyrnumanninn innan tveggja vikna og Osório de Castro staðfesti síðar að það hefði verið gert.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Spiegel. Fréttin er á ensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert