„Stundum segir maður heimskulega hluti“

Buffon er 39 ára gamall.
Buffon er 39 ára gamall. AFP

Ítalski markvörðurinn Gianluigi Buffon upplýsti eftir 2:2-jafntefli Juventus gegn Atalanta í ítölsku A-deildinni í knattspynu í gærkvöldi að hann hefði gefið áhugavert loforð fyrir viðureign Juventus og Barcelona í Meistaradeildinni.

Juventus sló Barcelona út en liðið sigraði Spánarmeistarana 3:0 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum á Ítalíu áður en liðin gerðu markalaust jafntefli á Spáni.

„Ég lofaði liðsfélögum mínum því að ég myndi hætta knattspyrnu, leggja skóna á hilluna, ef við myndum ekki fá á okkur mark gegn Barcelona,“ sagði Buffon við ítalska fjölmiðla og bætti við að það væri frábært afrek að spila 180 mínútur gegn Barcelona án þess að fá á sig mark.

„Ég sagði forseta félagsins frá þessu eftir leikina og hann benti mér þá á að maður segir stundum heimskulega hluti! Hann er reynslumeiri en ég og veit þetta betur,“ bætti Buffon við en hann er með samning við Juventus til næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert