Eiður Smári útilokar ekki Indland

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eiður Smári Guðjohnsen heldur enn opnum þeim möguleika að spila í indversku ofurdeildinni en meiðsli urðu þess valdandi að hann gat ekki spilað í henni á síðustu leiktíð.

Eiður Smári samdi við indverska liðið Pune City skömmu eftir Evrópumótið í Frakklandi síðastliðið sumar en hann meiddist á undirbúningstímabilinu með liðinu á Spáni skömmu áður en deildarkeppnin hófst á Indlandi og varð að segja skilið við félagið.

„Ég myndi ekki útiloka það. Ég er ekki formlega hættur. Ég hef verið atvinnumaður í 23 ár og ég hef notið þess að vera í fríi síðustu mánuðina en ég held öllu opnu,“ segir Eiður Smári við Sky Sports.

„Að hafa ekki getað spilað með Pune City voru mikil vonbrigði fyrir mig. Þetta var ný áskorun og eitthvað öðruvísi. Ég bjóst ekki við því að meiðslin væru þetta mikil en eftir að hafa farið í myndatöku var ljóst að ég gæti ekki spilað þar sem ég yrði ekki búinn að ná mér í tæka tíð,“ segir Eiður, sem hefur verið tíður gestur í sjónvarpi sem álitsgjafi í Meistaradeildinni út um allan heim.

Deildarkeppnin í Indlandi hefst í okóber og stendur yfir í rúma tvo mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert