Versta sem ég upplifað í 40 ár

Leikmenn Bayern München fagna meistaratitlinum í Þýskalandi á dögunum.
Leikmenn Bayern München fagna meistaratitlinum í Þýskalandi á dögunum. AFP

Karl-Heinz Rummenigge, forseti þýska meistaraliðsins Bayern München, hefur hafnað boði frá UEFA um að vera viðstaddur úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem Real Madrid og Juventus mætast á þjóðarleikvanginum í Cardiff laugardaginn 3. júní.

Bæjarar hafa ekki jafnað sig eftir síðari leikinn á móti Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar þar sem nokkrir dómar féllu þeim í mót.

„Ég mun örugglega ekki mæta á leikinn því ég gleymi ekki hlutum svo fljótt. Við fengum fimm alvarlegar ákvarðanir dómaranna á móti okkur og þetta er það versta sem ég hef upplifað í þau 40 ár sem ég hef verið viðriðinn fótboltann,“ segir Rummenigge í viðtali við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.

Forráðamenn Bayern segja að framganga dómaranna hafi gert það að verkum að liðið átti ekki möguleika á að komast í úrslitaleikinn. Arturo Vidal var ranglega rekinn af velli í leiknum og tvö af þremur mörkunum sem Cristiano Ronaldo skoraði hefðu ekki átt að standa því hann var greinilega rangstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert