Gunnhildur kom Vålerenga á bragðið

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í leik með …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir í leik með íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í fótbolta, skoraði fyrsta mark Vålerenga í 6:1-stórsigri liðsins gegn Medkila í áttundu umferð norsku efstu deildarinnar í fótbolta kvenna á Harstad Stadion, heimavelli, Medkila, í dag. 

Markið í dag var annað mark Gunnhildar Yrsu fyrir Vålerenga í deildinni á yfirstandandi leiktíð. Vålerenga er í sjöunda sæti deildarinnar með ellefu stig eftir þennan sigur. Gunnhildur Yrsa kom til Vålerenga frá Stabæk fyrir þessa leiktíð.

Gunnhildur Yrsa er í leikmannahópi íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta sem mætir Írlandi og Brasilíu í vináttulandsleikjum um miðjan júní, en leikirnir eru hluti af undirbúningi Íslands fyrir lokakeppni EM sem fram fer í Hollandi í júlí. 

Ísland mætir Írum ytra fimmtudaginn 8. júní og íslenska liðið mætir síðan Brasilíu 13. júní á Laugardalsvelli. Leikurinn gegn Brasilíu er lokaleikur íslenska liðsins í undirbúningi fyrir lokakeppni EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert