Brasilía lengi verið í fremstu röð

Brasilíska landsliðið á æfingu á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Brasilíska landsliðið á æfingu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brasilíska kvennalandsliðið í knattspyrnu sem mætir því íslenska á Laugardalsvellinum í kvöld hefur lengi verið mjög framarlega á heimsvísu.

Brasilía hefur tvívegis unnið til verðlauna á heimsmeistaramótum, liðið hreppti bronsið á HM í Bandaríkjunum árið 1999 eftir sigur á Norðmönnum og tapaði úrslitaleiknum á HM 2007 í Kína, 2:0 gegn Þýskalandi.

Þá hefur Brasilía tvívegis fengið silfurverðlaun á Ólympíuleikum, í Aþenu 2004 og Peking 2008, en liðið tapaði leiknum um bronsið á heimavelli í Ríó á síðasta ári, gegn Kanada.

Í Suður-Ameríku hefur Brasilía verið besta liðið frá upphafi og orðið Suður-Ameríkumeistari í sex skipti af sjö en varð að láta sér nægja silfur árið 2006 eftir óvænt tap gegn Argentínu.

Brasilíska liðið er núna í 9. sæti heimslista FIFA, níu sætum ofar en Ísland. Neðar hefur Brasilía ekki farið á listanum en til ársins 2013 var liðið yfirleitt í þriðja eða fjórða sætinu. Þar spilar inní að það datt óvænt út gegn Ástralíu í 16-liða úrslitum HM 2015 í Kanada.

Marta er að sjálfsögðu þekktasti leikmaður brasilíska liðsins. Hún er 31 árs gömul, fyrirliði og markahæst í sögu þess með 107 mörk í 117 landsleikjum. Marta var kjörin knattspyrnukona ársins í heiminum fimm ár í röð, frá 2006 til 2010, og hefur eftir það verið fjórum sinnum í öðru eða þriðja sæti í því kjöri. Hún leikur nú með Orlando Pride í Bandaríkjunum en spilaði áður lengi í Svíþjóð, og við hlið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur með Rosengård í þrjú ár, frá 2014 til 2016.

Viðureignin í kvöld er sú fyrsta frá upphafi á milli kvennalandsliða Íslands og Brasilíu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert