Mun ræða við Ronaldo eftir Álfukeppnina

Ronaldo og Florentino Perez.
Ronaldo og Florentino Perez. AFP

Florentino Pérez, forseti spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, hefur ekki rætt við Cristiano Ronaldo um framtíð hans hjá félaginu. Hann stefnir hins vegar að því að ræða við hann eftir Álfukeppnina í Rússlandi, þar sem Ronaldo er um þessar mundir með portúgalska landsliðinu. 

Ronaldo er sagður vilja yfirgefa Real eftir að hafa verið ásakaður um skattsvik af spænskum yfirvöldum. Ronaldo skrifaði undir fimm ára samning við Real í nóvember, en hann hefur verið orðaður við Manchester United að undanförnu. 

„Eina sem ég get sagt er að Cristiano Ronaldo er leikmaður Real Madrid,“ sagði Pérez. 

„Það er augljóst að eitthvað gerðist sem hafði áhrif á hann. Hann er sem stendur á mikilvægu móti með portúgalska landsliðinu og ég vil ekki trufla hann þar. Ef hann yfirgefur Real Madrid er það ekki peninganna vegna. Ég mun ræða við hann eftir mótið,“ bætti hann við. 

Pérez sagði einnig að félagið hefði ekki fengið nein tilboð í leikmenn, þrátt fyrir að Álvaro Morata og James Rodríguez væru eftirsóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert