Segja Sverri fá 65 milljónir á ári

Sverrir Ingi Ingason á æfingu íslenska landsliðsins fyrr í þessum …
Sverrir Ingi Ingason á æfingu íslenska landsliðsins fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Golli

Vel gæti farið svo að Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, fari frá spænska félaginu Granada í sumar en hann hefur verið orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Huddersfield Town sem og Leeds United, sem leikur í næstefstu deild Englands.

Spænski miðillinn Ideal, sem fylgist náið með liði Granada, tekur undir fréttir enskra miðla þess efnis að Sverrir sé með klásúlu í samningi sínum við félagið sem geri hann falan fyrir ákveðna upphæð. Í The Sun var sagt að sú upphæð væri 2 milljónir punda en Ideal segir að upphæðin sé 2,3 milljónir punda.

Ideal segir að Sverrir sé tilbúinn að spila áfram með Granada þó að félagið hafi fallið niður úr efstu deild Spánar í vor, enda sé hann með 550.000 evrur (jafnvirði um 65 milljóna króna) í árslaun fyrir skatt. Komi spennandi tilboð sé hann að sama skapi tilbúinn að fara.

Sverrir Ingi kom til Granada frá Lokeren í Belgíu í janúar og nam kaupverðið 1,6 milljónum evra, samkvæmt Ideal. Helmingur upphæðarinnar var greiddur þá en hinn helminginn á spænska félagið að greiða fyrir 31. janúar á næsta ári. Verði Sverrir seldur fær Lokeren, samkvæmt samkomulagi félaganna, 10% af kaupverðinu eftir að 1,7 milljón evra hefur verið dregin af því. Þannig fengi Lokeren 90.000 evrur yrði Sverrir seldur fyrir 2,6 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert