Björn skoraði tvö – orðinn markahæstur

Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Ljósmynd/Molde

Björn Bergmann Sigurðarson heldur áfram að skora fyrir norska liðið Molde. Hann gerði tvö marka liðsins í 3:0 sigri á Álasundi í norsku A-deildinni í knattspyrnu í dag. Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarsson spiluðu allan leikinn fyrir Álasund og Aron Elís Þrándarson fyrstu 87. mínúturnar. Óttar Magnús Karlsson var ekki með Molde í dag. 

Björn skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf frá Christoffer Remmer og það seinna gerði hann af öryggi úr vítaspyrnu á 57. mínútu. Björn er nú kominn með tíu mörk í 16 leikjum í deildinni og er hann orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Ohi Omoijuanfo, leikmanni Stabæk. Björn hefur skorað fimm mörk í síðustu fjórum leikjum sínum með Molde.

Molde fór upp í 27 stig og þriðja sæti deildarinnar með sigrinum, en Álasund er í 5. sæti með 22 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert