Dreymir um að komast í riðlakeppnina

Gunnar Nielsen.
Gunnar Nielsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Draumurinn er að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar,“ sagði færeyski landsliðsmarkvörðurinn Gunnar Nielsen við vefmiðilinn portal.fo eftir sigur Íslandsmeistara FH gegn Víkingi Götu, 2:0, í síðari viðureign liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Þórshöfn í kvöld.

Gunnar segir að það hafi verið sérstök upplifun að hafa verið í útiliðinu í leik á Tórsvellinum en völlurinn er heimavöllur færeyska landsliðsins þar sem Gunnar er markvörður.

„Við vorum mikið með boltann eins og í fyrri leiknum. Við vissum uppleggið hjá Víkingi. Þeir byggja á skyndisóknum. Í seinni hálfleik snerist þetta um hjá okkur að vera þolinmóðir. Fyrsta markið kom seint í leiknum en við vorum í nákvæmlega sömu stöðu og stærri landsliðin eru í þegar þau mæta færeyska landsliðinu.

Okkur dreymir um að komast í riðlakeppnina. Það verður erfitt en við verðum að trúa því að við getum það. Nú erum við búnir að tryggja það að við spilum í það minnsta fjóra Evrópuleiki og það hefur mikla þýðingu fyrir félagið,“ sagði Gunnar.

Það skýrist á morgun hvort FH mætir Maribor frá Slóveníu eða Zrinjski frá Slóveníu en Maribor vann fyrri leikinn á útivelli, 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert