Stjórinn sá allt neikvætt við Ragnar

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það kom aðeins á óvart að svona stór klúbbur hefði allt í einu áhuga á mér,“ sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson eftir að hafa samið við rússneska félagið Rubin Kazan en hann hefur verið lánaður þangað frá enska B-deildarliðinu Fulham.

Ragnar segir í samtali við 433.is að hann hafi talið það best að fara frá Fulham eftir erfitt fyrsta tímabil og að ljóst væri að hann yrði ekki í plönum þjálfarans á komandi tímabili.

„Þegar að þjálfarinn er búinn að mynda sér ákveðna skoðun um þig þá skiptir í raun ekki máli hvað þú gerir, stjórinn sér það alltaf á neikvæðan hátt,“ sagði Ragnar en veit að hann gengur ekkert inn í liðið hjá Rubin.

„Ef það er eitthvað sem ég hef lært á þessum blessaða knattspyrnuferli þá er það það að þú veist aldrei hvað er að fara gerast og það þarf svo lítið að gerast til þess að hlutirnir breytist. Ég er ekkert að velta mér of mikið uppúr því hvað mun gerist. Þeir voru ólmir í að fá mig og ég reikna með því að ég sé leikmaður sem þeim vantar. Ég er að reikna með því að spila en ég tek þessu auðvitað líka með fyrirvara,” sagði Ragnar meðal annars við 433.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert