Viðar eini Íslendingurinn sem fór áfram

Viðar Örn Kjartansson og félagar í Maccabi Tel Aviv eru …
Viðar Örn Kjartansson og félagar í Maccabi Tel Aviv eru komnir í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. mbl.is/Árni Sæberg

Viðar Örn Kjartansson og félagar í ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv eru komnir áfram í Evrópudeildinni í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á gríska liðinu Panionios á útivelli í kvöld. Maccabi vann einvígið samanlagt 2:0. Viðar lék fyrstu 83 mínútur leiksins. 

Kári Árnason var allan tímann á varamannabekk skoska liðsins Aberdeen sem féll úr leik eftir 3:2 tap gegn Apollon Limassol frá Kýpur á útivelli. Apollon fer áfram eftir 3:2 sigur samanlagt.

Hallgrímur Jónasson var ekki í leikmannahópi danska liðsins Lyngby sem tapaði fyrir Krasnodar frá Rússlandi á heimavelli sínum, 1:3. Krasnodar vann einvígið samanlagt 5:2. Lyngby gerði þau mistök að skrá ekki Hallgrím í leikmannahóp sinn fyrir leikina tvo og hann missti því af þeim báðum.

Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn fyrir Brøndby frá Danmörku sem mátti þola 2:0 tap á útivelli gegn Hadjuk Split frá Króatíu. Fyrri leikurinn endaði með markalausu jafntefli og fer Hadjuk því áfram. 

Albert Guðmundsson var ekki í leikmannahópi PSV Eindhoven frá Hollandi sem tapaði fyrir Osijek frá Króatíu á útivelli, 1:0. Fyrri leikurinn endaði einnig 1:0 fyrir Osijek og eru Albert og félagar því úr leik. 

Loks var Haukur Heiðar Hauksson allan tímann á varamannabekk sænska liðsins AIK sem þurfti að sætta sig við grátlegt tap fyrir portúgalska liðinu Braga í Portúgal. Fyrri leiknum lauk með 1:1 jafntefli og þannig var staðan í leik dagsins eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar skoraði Braga sigurmark leiksins í uppbótartíma í framlengingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert