Kolbeinn af stað fyrir áramót?

Kolbeinn Sigþórsson átti stóran þátt í því að Ísland skyldi …
Kolbeinn Sigþórsson átti stóran þátt í því að Ísland skyldi komast í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi en síðan þá hefur hann lítið sem ekkert getað spilað fótbolta. mbl.is/Skapti

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í knattspyrnu, gæti verið á leið aftur inn á knattspyrnuvöllinn áður en árið er úti eftir afar langvinn og erfið meiðsli.

Um tíma var óttast að ferill Kolbeins væri á enda en hann hefur ekki spilað fótboltaleik síðan í ágúst 2016, skömmu eftir að hafa leikið lykilhlutverk í að koma íslenska landsliðinu alla leið í 8 liða úrslit Evrópumótsins í Frakklandi.

Í frétt á vef RÚV segir Andri Sigþórsson, bróðir og umboðsmaður Kolbeins, að vonir standi til þess að Kolbeinn byrji að spila að nýju fyrir áramót. Kolbeinn er á mála hjá franska félaginu Nantes en var lánaður til Galatasaray fyrri hluta síðustu leiktíðar, án þess þó að ná að spila þar vegna hnémeiðsla sinna.

Kolbeinn hefur gengist undir tvær aðgerðir á hnénu og samkvæmt frétt RÚV heppnaðist sú síðari vel. Kolbeinn, sem hefur dvalið hér á landi, er nú á leið í læknisskoðun hjá Nantes en það þýðir þó ekki að hann muni geta hafið æfingar alveg strax:

„Hann fór í sterasprautu á dögunum og er bara á leið í styrktaræfingar. Hann verður í endurhæfingu sem mun svo leiða í ljós hvenær hann getur snúið aftur á æfingar hjá Nantes en við erum að vona að hann geti byrjað að spila á fyrri hluta þessa tímabils, það er að segja fyrir áramót. Þetta hafa verið erfið meiðsli að eiga við,“ sagði Andri við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert