Zidane-feðgar í vandræðum á Spáni

Zinedine Zidane
Zinedine Zidane AFP

„Ég vona að hann skori ekki,“ sagði Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid sem mætir syni sínum, hinum 22 ára gamla Enzo [Zidane] Fernández í 1. deild spænsku knattspyrnunnar í dag.

Spænsku meistararnir hafa farið nokkuð illa af stað ef miðað er við mælikvarða Real Madrid en liðið er í 8. sætinu með 8 stig eftir fimm umferðir og tapaði síðasta leik gegn Real Betis.

Enzo á einnig í erfiðleikum hjá sínu liði, Alaves, sem sem er án stiga á botninum en Enzo sjálfur hefur aðeins leikið rétt rúmar 70 mínútur.

„Ég veit ekki hvort það verði skrýtið að mæta honum en ég er ánægður fyrir hans hönd þar sem hann stendur sig vel,” sagði Zidane.

„Ég er ekki búinn að hugsa mikið út í þetta. En leikurinn er Alaves gegn Real Madrid. Það er mér mikilvægast,“ sagði Zidane.

Lítur á pabba og Modric sem fyrirmyndir

„Þetta er sérstakur leikur. Þetta er gegn liðinu sem ég ólst upp hjá,” sagði Enzo við vefsíðu Alaves en hann á að baki tvo leiki með aðalliði Real Madrid.

Enzo Zidane.
Enzo Zidane. AFP

„Þetta verður skrýtið, en einnig fallegt. Ég vil ólmur spila og það er aldrei að vita nema að við náum stigum af þeim,“ sagði Enzo.

Zidane segir að hann skipti sér ekki of mikið af ferli Enzo og tali við hann eins og faðir við son, frekar en þjálfari við leikmann.

„Ég er ekki þjálfari hans. Ég er faðir hans og þarf ekki að veita honum neitt hvað varðar fótboltann. Þegar við tölum saman er það faðir sem talar við son og öfugt,“ sagði Zidane.

Enzo hefur þó litið á faðir sinn sem fyrirmynd sín á knattspyrnuvellinum en segist einnig líta upp til Króatans Luka Modric.

„Ég hef alltaf horft til pabba míns vegna þess að er pabbi minn og var frábær leikmaður,“ sagði Enzo.

„En af núverandi leikmönnum liðsins horfi ég til Modric. Hann gerir knattspyrnuna fallegri. Ég var svo heppinn að deila búningsklefa með honum á síðasta ári og gat þá fylgst með honum fyrstu hendi og lært af honum,“ sagði Enzo.

Zidane var frábær leikmaður og vann meðal annars heimsmeistaratitilinn með Frökkum 1998.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert