Neymar slær vindhögg hjá UEFA

Neymar í leik með PSG fyrr á leiktíðinni.
Neymar í leik með PSG fyrr á leiktíðinni. AFP

Það eru litlar kærleikar á milli Neymar og hans fyrrum félags, Barcelona, en viðskilnaður brasilíska knattspyrnumannsins við spænska félagið hefur dregið dilk á eftir sér.

Neymar fór til að mynda fram á það við evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, að Barcelona yrði vísað úr keppni í Meistaradeild Evrópu þar sem félagið hafi vanefnt skyldu sína um að greiða honum greiðslu sem hann átti kröfu vegna tryggðar sinnar við félagið.

Neymar taldi sig eiga heimtu á tæpum tveimur og hálfum milljörðum íslenskra króna fyrir að hafa haldið tryggð við samning sinn við Barcelona. Forráðamenn Barcelona halda því hins vegar fram að sú krafa hafi fallið niður við vistaskipti Neymar frá Barcelona til PSG. 

Beiðni Neymar um brottvikningu Barcelona úr Meistaradeild Evrópu hefur verið hafnað af UEFA og spurning hver næstu skref verða hjá Neymar við innheimtu sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert