Tólf þúsund áhorfendur fá engan leik

Dönsku landsliðskonurnar eiga í harðri deilu um kaup og kjör …
Dönsku landsliðskonurnar eiga í harðri deilu um kaup og kjör við danska knattspyrnusambandið, og hefur deilan staðið yfir lengi. Ljósmynd/dbu.dk

Knattspyrnusamband Evrópu staðfesti í dag að leik Danmerkur og Svíþjóðar í undankeppni HM kvenna hefði verið aflýst. Leikurinn átti að fara fram á morgun en vegna kjaradeilu danskra landsliðskvenna við danska knattspyrnusambandið verður ekkert af honum.

Svíar reiknuðu með 12.000 áhorfendum á leikinn í Gautaborg á morgun, þar sem sjálft silfurlið EM átti að mæta. Miðaverð var á bilinu 1.000 til 2.400 krónur og reiknaði sænska knattspyrnusambandið því með að minnsta kosti 16 milljónum íslenskra króna í tekjur af miðasölu, samkvæmt frétt Ekstra Bladet. Blaðið spurði Håkan Sjöstrand hjá sænska sambandinu hvort það myndi krefja danska knattspyrnusambandið um skaðabætur:

„Við munum að sjálfsögðu ræða málin við danska sambandið í kjölfarið á þessu. Núna þurfum við að leysa úr praktískum málum, endurgreiða miða og annað slíkt, og það er ljóst að þegar þetta er allt frágengið þá þurfum við að fara yfir afleiðingarnar fyrir okkur. Við höfum alltaf átt í góðu sambandi við danska sambandið,“ sagði Sjöstrand.

Sjöstrand benti einnig á að fjöldi ungra, sænskra knattspyrnuáhugamanna hefði verið á leiðinni til Gautaborgar og ætlað sér að sjá leikinn, sem gerði málið sérstaklega leitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert