Birkir lagði upp tvö – Íslendingaliðið fallið

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson lagði upp tvö mörk fyrir Hammarby í kvöld þegar liðið gerði 3:3 jafntefli gegn Sirius í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Birkir og Arnór Smárason léku allan tímann fyrir Hammarby, sem komst í 2:0 eftir 22 mínútna leik en lenti svo 3:2 undir áður en liðinu tókst að jafna metin undir lok leiksins. Hammarby er í 11. sætinu með 35 stig.

Íslendingaliðið Halmstad féll úr deildinni í kvöld þrátt fyrir að spila ekki. Sigur Jönköping gegn Kalmar gerði það að verkum að Halmstad er fallið en með liðinu leika Höskuldur Gunnlaugsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson. Árni Vilhjálmsson var ónotaður varamaður hjá Jönköping í kvöld sem er í 13. sætinu með 28 stig.

Þá lék Haukur Heiðar Hauksson allan tímann með AIK sem gerði markalaust jafntefli gegn meisturunum í Malmö. AIK er í öðru sæti deildarinnar með 51 stig, er tíu stigum á eftir Malmö þegar tveimur umferðum er ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert