Flóki skoraði í lokaleiknum

Kristján Flóki hefur spilað vel með Start.
Kristján Flóki hefur spilað vel með Start. Ljósmynd/ikstart.no

Åsane hafði betur gegn Kristjáni Flóka Finnbogasyni og félögum í Start, 3:2, í norsku B-deildinni í knattspyrnu í 30. og síðustu umferðinni í dag. Það kom hins vegar ekki að sök þar sem Start hafði áður tryggt sæti sitt í efstu deild á næsta tímabili. 

Kristján Flóki jafnaði fyrir Start á 84. mínútu, 2:2, en Åsane skoraði sigurmarkið í lokin. Hann gerði því 4 mörk í 10 leikjum eftir að hann kom til Start frá FH í ágúst. Guðmundur Kristjánsson var ekki í leikmannahópi Start en hann hefur þegar samið við FH til næstu tveggja ára. Bodø/Glimt var með yfirburði á toppi deildarinnar, endaði með 71 stig, Start kemur þar á eftir með 55 stig.

Fjögur næstu lið, Mjöndalen, Ranheim, Sandnes Ulf og Ull/Kisa, fara í umspil um hvert þeirra leikur til úrslita við þriðja neðsta lið úrvalsdeildar um sæti þar. Elverum og Arendal féllu niður í C-deild og Fredrikstad fer í umspil um B-deildarsæti við Notodden. HamKam og Nest Sotra koma upp úr C-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert