Markaþurrð hjá Suárez

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Luis Suárez, framherji Barcelona, segist þess fullviss að hann komist fljótlega í sitt rétta form en Úrúgvæinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu vikurnar.

Suárez hefur aðeins skorað þrjú mörk í spænsku deildinni á tímabilinu en hann hefur spilað 451 mínútu með liðinu sínu án þess að finna netmöskvana. Markaþurrð hans hefur þó ekki komið í veg fyrir að Barcelona hefur unnið 10 af 11 leikjum sínum og er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar. Lionel Messi hefur sem betur fer fyrir Börsunga verið á skotskónum en Argentínumaðurinn hefur skorað 12 mörk og er markahæstur í deildinni.

„Ég er alltaf gagnrýninn á sjálfan mig og ég spyr mig stöðugt hvað ég geti gert betur. Það sem ég segi er að ég gefst aldrei upp og hætti aldrei að reyna. Ég held áfram að berjast sem hefur komið mér svo langt á ferli mínum,“ segir Suárez í viðtali við spænska blaðið El Mundo Deportivo.

Sem stendur er liðið að gera vel og ná í góð úrslit þrátt fyrir að það vanti fleiri mörk frá mér en að sjálfsögðu þarf ég að bæta úr því,“ segir Úrúgvæinn, sem hefur ekki hefur skorað í síðustu fimm deildarleikjum með liði sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert