Króatar í góðum málum í umspili HM

Ivan Perisic fagnar marki sínu gegn Grikklandi í kvöld.
Ivan Perisic fagnar marki sínu gegn Grikklandi í kvöld. AFP

Fyrri tveir leikirnir í umspili Evrópuþjóða fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar fóru fram í kvöld og þar unnu Króatar og Svisslendingar sigra.

Króatar, sem urðu í öðru sæti á eftir Íslendingum í riðlakeppninni, áttu ekki í vandræðum með Grikkland á heimavelli og unnu 4:1 sigur. Luka Modric kom Króötum yfir úr vítaspyrnu strax á 13. mínútu og Nikola Kalinic bætti við marki, áður en Sokratis Papastathopoulos minnkaði muninn fyrir Grikki.

Ivan Perisic og Andrej Kramari bættu hins vegar við mörkum, lokatölur 4:1 fyrir Króata sem standa vel að vígi fyrir síðari leikinn í Grikklandi í næstu viku.

Það var meiri spenna í Belfast þegar Norður-Írland tók á móti Sviss. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það mark Ricardo Ridríguez úr vítaspyrnu sem tryggði Sviss 1:0-sigur og mikilvægt útivallarmark fyrir síðari leikinn í Sviss eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert