Svíar með yfirhöndina í umspili HM

Emil Forsberg og Martin Olsson fagna markaskoraranum Jakob Johansson, lengst …
Emil Forsberg og Martin Olsson fagna markaskoraranum Jakob Johansson, lengst til hægri, eftir sigurmarkið í kvöld. AFP

Svíar eru með yfirhöndina í einvígi sínu við Ítali í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar eftir 1:0-sigur í fyrri viðureign þjóðanna í kvöld.

Staðan var markalaus í leikhléi og var fyrri hálfleikurinn nokkuð jafn. Svíar voru hins vegar beittari fram á við og það átti eftir að skila sér eftir hlé.

Á 61. mínútu skoraði varamaðurinn Jakob Johansson með sinni fyrstu snertingu í leiknum. Eftir langt innkast inn í teiginn náðu Ítalir ekki að hreinsa frá og skot Johansson fór af Deniele de Rossi og í netið. Staðan 1:0 fyrir Svíþjóð.

Ítalir bitu frá sér og aðeins örfáum mínútum síðar áttu þeir tilraun í stöng þegar Matteo Darmian reyndi skot af löngu færi. Ítalir reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að setja mark sitt á leikinn, lokatölur 1:0 fyrir Svíþjóð.

Liðin mætast á ný á Ítalíu í næstu viku þar sem endanlega verður ljóst hvort liðið fer á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert