Ástralía næstsíðasta þjóðin á HM

Ástralir fagna öðru marki Mile Jedinak í leik liðsins gegn …
Ástralir fagna öðru marki Mile Jedinak í leik liðsins gegn Hondúras. AFP

Ástralía varð rétt í þessu næstsíðasta þjóðin til þess að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu.

Það gerði liðið með því að leggja Hondúras að velli með þremur mörkum gegn einu í seinni leik liðanna sem fram fór í Sydney í Ástralíu. Fyrri leik liðanna lyktaði með markalausu jafntefli og því hafði Ástralía betur samanlagt, 3:1, í viðureign liðanna. 

Maynor Figueroa, leikmaður Hondúras, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og kom hann þannig Ástralíu á bragðið. Mile Jedinak bætti svo við tveimur mörkum við fyrir Ástralíu. 

Maynor Figueroa bætti síðan upp fyrir sjálfsmark sitt með marki sínu fyrir Hondúras í uppbótartíma leiksins. Þar við sat og Ástralía verður því í pottinum þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina 1. desember næstkomandi. 

Þar með er einungis eitt sæti laust í lokakeppninni, en Perú og Nýja-Sjáland munu bítast um það sæti í Lima, höfuðborg Perú, í nótt. Staðan í því einvígi er 0:0 eftir fyrri leik liðanna sem fram fór í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert