Er ekki að hugsa um ítalska landsliðið

Viðbrögð leikmanna ítalska landsliðsins eftir leikinn gegn Svíum.
Viðbrögð leikmanna ítalska landsliðsins eftir leikinn gegn Svíum. AFP

Roberto Mancini hefur útilokað að taka við þjálfun ítalska landsliðsins í knattspyrnu en ítalska knattspyrnusambandið rak í vikunni hinn 69 ára gamla Giampiero Ventura úr starfi eftir að Ítalir náðu ekki að vinna sér sæti á HM og verða ekki með á HM í fyrsta sinn í 60 ár.

„Ég er ekki hissa á að ég sé nefndur til sögunnar en ég er ánægður hjá Zenit og er ekki að hugsa um ítalska landsliðið,“ sagði Mancini við fréttamenn en hann tók við þjálfun Zenit Petersburg á þessu ári. Sjálfur lék Mancini 36 leiki með ítalska landsliðinu og skoraði í þeim fjögur mörk.

„Eins og marga aðra landa mína dreymdi mig um að sjá ítalska landsliðið á HM í Rússlandi en sjá það falla úr leik var virkilega sárt,“ sagði Mancini en Carlo Ancelotti þykir nú líklegastur til að taka við þjálfun ítalska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert