Neitar illindum milli Ronaldo og Ramos

Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos.
Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Evrópumeistara Real Madrid, hefur neitað því að ósætti ríki á milli þeirra Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos.

Ronaldo hefur tjáð sig í fjölmiðlum um það að liðið sakni leikmanna sem yfirgáfu félagið í sumar, á meðan Ramos hefur sagt að það sé vitleysa – Real sakni ekki neins. Í kjölfarið fóru að berast sögur af ósætti innan herbúða liðsins.

„Við leysum hlutina innan liðsins. Ég er með þessa tvo leikmenn sem hafa komið félaginu í sögubækurnar og vita hvað er mikið er undir. Annar þeirra segir eitt og hinn annað, en þeir bera mikla virðingu fyrir hvor öðrum. Þeir eru bráðgáfaðir og geta sagt hvað sem þeir vilja. Ef þið haldið að það séu illindi milli þeirra, þá er það alrangt,“ sagði Zidane.

Meðal þeirra sem yfirgáfu félagið í sumar voru Alvaro Morata, James Rodríguez og Pepe, en Real hefur byrjað tímabilið illa og er þegar átta stigum á eftir toppliði Barcelona í spænsku 1. deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert