„Ísland hefur enga HM-reynslu“

Juan Sebastian Veron.
Juan Sebastian Veron. AFP

Juan Sebastian Veron sem lék á árum áður 73 leiki með argentínska landsliðinu í knattspyrnu og var um tíma leikmaður Manchester United telur að Argentínumenn komist án nokkurra vandræða upp úr riðli sínum á HM í Rússlandi næsta sumar.

Argentína, sem í tvígang hefur hampað heimsmeistaratitlinum, er í riðli með Íslandi, Króatíu og Nígeríu.

„Riðillinn sem Argentínumenn eru í er ekki auðveldur en það er gott að þeir fengu ekki neitt stórlið með sér,“ segir Veron í viðtali við argentínska netmiðilinn Dnevo.

„Argentína ætti að komast áfram án vandræða og það er gott til þess að vita að í 16-liða úrslitunum þá losna þeir við að mæta stórliðum. Það þýðir að við höfum nokkra leiki til að hrista okkur saman og verða enn sterkari þegar á keppnina líður,“ sagði Veron.

„Ísland hefur enga reynslu af þessari keppni en það lék mjög vel á Evrópumótinu og í gegnum undankeppni HM. Við getum ekki talið það óvænt en það er stígandi í þeirra liði.

Lið Nígeríu er óútreiknanlegt. Það lendir alltaf með okkur í riðli. Afrískir leikmenn eru óstöðugir og ráðast af því hvernig þeir eru degi fyrir leik og hvernig þeim líður í leiknum.

Króatía er ekki slæmt lið. Það er með leikmenn í sterkum liðum í Evrópu. Við getum ekki vanmetið þá. Við erum sterkari en þeir en við þurfum að taka þá með varúð,“ segir Veron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert