Birkir Már yfirgefur Hammarby - Á leið til Vals?

Birkir Már Sævarsson
Birkir Már Sævarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska knattspyrnufélagið Hammarby staðfestir á heimasíðu sinni í dag að landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson hafi yfirgefið félagið en líklegt er að Birkir gangi til liðs við sitt gamla félag, Val.

„Ég hef átt þrjú yndisleg ár hérna og ég hef notið þess að spila með liðinu. Ég hef átt góða samherja sem ég á eftir að sakna. Það hefur alltaf verið mikill heiður að klæðast treyju Hammarby og að spila fyrir framan stuðningsmennina á heimavelli og á útivelli.

Nú tekur við ný áskorun og vonandi sjáumst við á HM í Rússlandi næsta sumar þar sem það yrði gaman að mæta Svíum í lokaleiknum,“ segir Birkir Már á vef Hammarby en samningur hans við félagið er útrunninn. Birkir Már lék 84 leiki með liði Hammarby og skoraði í þeim þrjú mörk.

Birkir Már, sem er 33 ára gamall, lék með Val frá 2003 til 2008. Hann fór til Brann í Noregi árið 2008 og lék með því í sjö ár áður en hann gekk til liðs við Hammarby. Hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu mörg undanfarin ár og hefur spilað 76 leiki og skorað í þeim eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert