Messi: Erfitt að opna íslenska liðið

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu, segir að það verði erfitt að mæta Íslendingum í fyrsta leiknum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar.

Argentínumenn eru í riðli með Íslendingum, Króötum og Nígeríumönnum á HM og í fyrstu umferðinni mætast Argentína og Ísland í Moskvu laugardaginn 16. júní.

„Ef Argentína mun ekki standa sig vel á HM þá þurfum við allir að yfirgefa landsliðið. Ég held að í leiknum á móti Króatíu munum við meira pláss til að spila en íslenska liðið er þétt til baka. Það er erfitt að opna lið sem er svo þétt til baka og sækir hratt í skyndisóknum,“ segir Messi í viðtali við argentínska miðilinn TyC Sports.

„Við gengum í gegnum erfiðan tíma og staðreyndin er sú að við þurfum að bæta okkur ef við ætlum að verða heimsmeistarar. Við höfum tíma til að gera það í leikjunum fram að HM. Eins og við erum í dag erum við ekki langt frá því þótt það séu betri lið heldur en við eins og Brasilía, Þýskaland, Frakkland og Spánn.

Við höfum átt góða leiki eða að minnsta kosti góða kafla undir stjórn Sampaoli en við höfum ekki spilað marga leiki undir hans stjórn. Það var líka pressa á okkur þar sem við urðum að vinna leiki. Það er ekki auðvelt að spila undir þeim kringumstæðum og með marga nýja leikmenn sem voru ekki vanir að fara í gegnum svona tíma með landsliðinu,“ segir Messi sem telur að HM í Rússlandi verði líklega sitt síðasta tækifæri til að vinna stóran titil með argentínska landsliðinu en Messi er 30 ára gamall.

Messi vill að Gonzalo Higuain, framherji Juventus, fái tækifæri að nýju með landsliðinu.

„Hann er einn af bestu nr. 9 í heiminum og hann sýnir það um hverja helgi með Juventus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert