Vædderen fékk viðurnefnið veisluskipið í leiðangri

Danska varðskipið Vædderen.
Danska varðskipið Vædderen. mbl.is/Golli

Danska blaðið Jyllands-Posten gagnrýnir danska sjóherinn harðlega fyrir skipulagningu svonefnds Galathea-leiðangurs en um er að ræða leiðangur um borð í varðskipinu Vædderen. Skipið hefur undanfarna mánuði siglt um flest heimsins höf og flutt vísindamenn, fjölmiðlamenn og stúdenta á milli landa og heimsálfa.

Blaðið er aðili að leiðangrinum og hefur nú sent sjóhernum skýrslu, sem átti að vera trúnaðarmál en hefur nú komist til annarra fjölmiðla. Í skýrslunni er fullyrt, að áhöfn varðskipsins hafi drukkið ótæpilega á frívöktum og í höfum og stært sig af heimsóknum í vændishús. Þetta sé afar óheppilegt í ljósi þess, að afar ungir nemendur hafi oft verið um borð í skipinu.

Í skýrslunni segir að orðrómurinn um lífernið um borð í Vædderen hafi verið orðinn svo sterkur, að bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn hafi á tímabili vísað til leiðangursins sem The Partyboat.

Nils Wang, aðmíráll og yfirmaður danska sjóhersins, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segist ekki kannast við þá mynd af sjóhernum sem dregin er upp í skýrslu Jyllands-Posten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka