Vésteini Hafsteinssyni, Íslandsmethafa í kringlukasti og fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslendinga í frjálsíþróttum, stendur til boða að gerast landsliðsþjálfari Breta í kastgreinum frjálsíþrótta. Vill breska frjálsíþróttasambandið gera samning við Véstein um að hann sjái um uppbyggingu kastlandsliðs Breta fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í London árið 2012. "Mér er mikill heiður að þessu boði enda eru Bretar á meðal stórþjóða í heimi frjálsíþrótta," sagði Vésteinn í samtali við Morgunblaðið í gær.
iben@mbl.is
Vésteinn gengur á fund breska frjálsíþróttasambandsins upp úr miðri næstu viku þar sem hann reiknar með að gefa Bretunum ákveðið svar. "Auðvitað er það spennandi kostur að taka þessu starfi og stýra uppbyggingu breska kastlandsliðsins fyrir Ólympíuleikana í London 2012, en Bretar leggja mikið undir. Á móti kemur að síðan ég lét af starfi landsliðsþjálfara Danmerkur í kastgreinum í fyrra hef ég eingöngu unnið með útvöldum hópi kastara og það hefur gengið mjög vel, meðal annars hafa fjórir þeirra tryggt sér farseðilinn á HM í Japan í haust og fleiri eru nærri því. Ég er því að mörgu leyti kominn í draumastöðu. Hinu má heldur ekki gleyma að Bretar eru meðal stórþjóða í heimi frjálsíþrótta og það er mikil ögrun að vinna þar auk þess sem tilboð Bretanna er fjárhagslega mjög hagstætt," sagði Vésteinn.
Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.