Gunnleifur Gunnleifsson knattspyrnumaður úr HK og Linda Björk Lárusdóttir frjálsíþróttakona úr Breiðabliki voru í kvöld útnefnd íþróttamaður og íþróttakona Kópavogs 2008, á íþróttahátíð Kópavogs sem haldin var í Salnum.
Í umsögn ÍTK um Gunnleif segir:
Gunnleifur hefur um árabil verið meðal bestu markvarða íslenskrar knattspyrnu. Hann hefur átt stóran þátt í því að koma liði sínu í hóp þeirra bestu og verið félagi sínu góð fyrirmynd bæði innan vallar sem utan. Á liðnu tímabili var hann sem fyrr í lykilhlutverki með liði sínu og í hópi bestu leikmanna úrvalsdeildar, þar sem hann var m.a. annars stigahæsti leikmaður deildarinnar í einkunnagjöf fjölmiðla. Í kjölfarið var hann valinn í A-landslið karla í knattspyrnu og lék 3 leiki með liðinu nú í haust og stimplaði sig þar rækilega inn sem aðalmarkvörður liðsins.
Í umsögn ÍTK um Lindu segir:
Linda Björk hefur bætt árangur sinn sem frjálsíþróttakona jafnt og þétt og er komin í hóp þeirra bestu. Linda Björk varð Íslands- og bikarmeistari í alls sjö greinum utan- og innanhúss auk þess sem hún sigraði í fjölmörgum öðrum mótum. Hún er einn albesti sprett- og grindahlaupari landsins og átti sem fyrr fast sæti í landsliði Íslands. Auk þess keppti hún fyrir Íslands hönd á Evrópubikarkeppninni í Tallinn í 100 m og 4x100 m boðhlaupi. Linda er þar á ofan frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk og einn mikilvægasti máttarstólpi frjálsíþróttadeildarinnar. Hún skorast aldrei undan ábyrgð þegar hagur liðsheildarinnar er annars vegar.
Gunnleifur og Linda fengu að launum farandbikara og eignarbikara, jafnframt því sem þau fengu hvort um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá bæjarstjórn Kópavogs.