Katrín Guðrún Tryggvadóttir úr Skautafélaginu Birninum keppir fyrir Íslands hönd í listhlaupi á skautum á alþjóðavetrarleikum Special Olympics sem hefjast í Idaho í Bandaríkjunum á morgun.
Katrín, sem er tvítug, hefur æft listhlaup á skautum hjá Birninum undir leiðsögn Helgu Olsen frá árinu 2005. Hún stundar nám í sérdeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti en þar eru nemendur hvattir til þátttöku í íþróttum.
Katrín fór til Bandaríkjanna í gær ásamt Helgu þjálfara sínum og Lilju Guðmundsdóttur, íþróttagreinastjóra Special Olympics í vetraríþróttum. Katrín er eini keppandinn sem Íþróttasamband fatlaðra sendir á leikana að þessu sinni en alls taka 2.500 keppendur frá 113 löndum þátt í þeim. Um 6.000 sjálfboðaliðar aðstoða við framkvæmd leikanna og um 800 starfsmenn hafa umsjón með keppnisgreinunum.