Íslendingar fengu gullið í Mexíkó

Íslensku strákarnir fagna sigrinum í nótt.
Íslensku strákarnir fagna sigrinum í nótt.

Strákarnir í U18 ára landsliði Íslands í íshokkí sigruðu í nótt Mexíkó, 4:3, eftir vítakeppni í úrslitaleik 3. deildar heimsmeistáramótsins í Mexíkó og unnu sér þar með sæti í 2. deild með fullu húsi stiga. Þeir tóku við gullverðlaununum á mótinu í leikslok.

Bæði lið höfðu unnið alla þrjá leiki sína á mótinu og því um hreinan úrslitaleik að ræða.

Íslenska liðið byrjaði leikinn með látum og eftir fyrstu lotu var staðan 3:1 íslenska liðinu í vil. Það var Sigurður Reynisson sem kom íslenska liðinu á bragðið þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum og tæpum fimm mínútum síðar bætti Björn Róbert Sigurðarson öðru marki við. Mexíkóar minnkuðu muninn mínútu síðar en Falur Birkir Guðnason tryggði að íslenska liðið færi tveimur mörkum yfir inn í leikhléið, 3:1.
 
Heldur dró af íslenska liðinu í annarri lotu og það nýtti lið Mexíkó sér og á fimm mínútna kafla í byrjun lotunnar náðu þeir að jafna leikinn, 3:3.

Það sem eftir lifði leiks náði hvorugt liðið að skora en nokkuð jafnræði var með liðunum. Því var framlengt um fimm mínútur og spilað uppá gullmark. Þrátt fyrir að fækkað sé um einn mann í hvoru liði í framlengingu, til að opna leikinn, náði hvorugt liðið að skora þó íslenska liðið væri öllu nærri því.

Þá var gripið til vítakeppni þar sem íslenska liðið hóf leikinn. Fyrstu tvö vítin misfórust hjá báðum liðum en í þriðja vítinu náði Falur Birki Guðnason að skora gott mark. Diego Linares tók vítið fyrir mexíkana en Bjarki Orrason gerði sér lítið fyrir og varði vítið og sígurinn var íslenska liðsins.

Andri Már Helgason var valinn maður leiksins í íslenska liðinu. Maður mótsins í íslenska liðinu var valinn Jóhann Már Leifsson. Í kjöri um bestu leikmenn eftir stöðum var Ingólfur Tryggvi Elíasson valinn besti varnarmaður mótsins.
 
Mörk/stoðsendingar Íslands:

Falur Birkir Guðnason 2/0
Sigurður Reynisson 1/0
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Brynjar Bergmann 0/1
Andri Már Helgason 0/1
Jóhann Már Leifsson 0/1

Refsingar: 8 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert