Sárt tap gegn sterku liði Rúmeníu

Robin Hedström skoraði fyrsta mark Ísland á HM. Hér er …
Robin Hedström skoraði fyrsta mark Ísland á HM. Hér er hann aðgangsharður gegn Króatíu í gærkvöldi. mbl.is/Kristján Maack

Ísland og Rúmenía áttust við í 2. deild heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Zagreb í dag klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Rúmenía sigraði 4:2 í spennandi leik þar sem Ísland kom mjög á óvart og var yfir 2:0 í öðrum leikhluta. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Ísland tapaði fyrsta leik sínum í gær á móti heimamönnum 0:9 en Rúmenía vann Kína 9:4. Rúmenía vann Ísland 8:3 á HM í Eistlandi í fyrra.

Mörk Íslands: Robin Hedström, Emil Alengård.

Stoðsendingar: Egill Þormóðsson, Robin Hedström, Stefán Hrafnsson.

Maður leiksins hjá Íslandi: Robin Hedström.

60. mín: Leik lokið Rúmenía sigraði 4:2 í mögnuðum leik þar sem Ísland skoraði fyrstu tvö mörkin. 

60. mín: Mark! Staðan er 4:2 fyrir Rúmena sem fengu skyndisókn og skoruðu í opið markið hjá Íslendingum. 

60. mín: Staðan er 3:2 fyrir Rúmeníu og 50 sekúndur eftir af leiknum. Ísland tekur leikhlé og mun væntanlega freista þess að taka markvörðinn út af eins og liðið gerði í síðustu sókn. 

58. mín: Staðan er 3:2 fyrir Rúmeníu og tvær mínútur eftir. Nú er leikurinn griðarlega hraður en leikmenn ná ekki almennilegu valdi á sóknunum. 

55. mín: Staðan er 3:2 fyrir Rúmeníu. Emil var að skila sér úr brottvísun þar sem Íslandi tókst að halda markinu hreinu. Nú er spennan að verða óbærileg. 

50. mín: Staðan er 3:2 fyrir Rúmeníu og sorglegt hvernig þessi leikur hefur þróast. Rúmenar reyna nú allt sem þeir geta til að bæta við fjórða markinu og gera út um leikinn. Dennis hefur varið tvívegis frábærlega á skömmum tíma.  

46. mín: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Rúmeníu. Birkir Árnason fékk brottvísun og um hálfri mínútu síðar skoruðu Rúmenar eftir þunga sókn. Þeir áttu þrjár skottilraunir í sókninni og Íslendingar voru ekki vakandi fyrir frákastinu.

45. mín: Staðan er 2:2. Síðasti leikhlutinn hefur einkennst af hamagangi og baráttu. Emil lét reyna á markvörð Rúmena snemma í leikhlutanum og Dennis varði vel rétt í þessu frá Rúmenum úr ágætu færi. 

40. mín: Staðan er 2:2 að loknum öðrum leikhluta. Íslendingar sóttu aftur í sig veðrið undir lok annars leikhluta og eru vonandi ekki af baki dottnir þó Rúmenar hafi jafnað á skömmum tíma. Ísland fékk fjölmörg marktækifæri í þessum leikhluta og Rúmenar mega vera sáttir við að hafa ekki fengið á sig fleiri mörk. Forvitnilegt verður að sjá hvernig síðasti leikhlutinn þróast. Staðan er frábær eins og er en Rúmenía spilaði í 1. deild árið 2009. Emil Alengård fékk kylfu í andlitið seint í leikhlutanum og lá eftir en kom aftur inn á. Dómararnir mátu það svo að um óviljaverk hafi verið að ræða en það er grunsamlegt þegar brotið er á okkar snjallasta leikmanni með þessum hætti.

37. mín: Staðan er  2:2. Gauti Þormóðsson fékk brottvísun en íslenska liðinu tókst að standa af sér mikla pressu frá Rúmenum. Dennis Hedström gerði vel í markinu.

34. mín: Mark! Staðan er 2:2. Sigurður Sigurðsson fékk brottvísun og þegar 12 sekúndur voru eftir af hans refsingu skoruðu Rúmenar með langskoti, nánast frá bláu línunni.  Nú þurfa íslensku leikmennirnir að halda einbeitingu út þennan leikhluta og þá er allt hægt. 

28. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Rúmenar skoruðu manni færri. Ísland missti pökkinn og eftir skyndisókn og gott einstaklingsframtak tókst Rúmenum að minnka muninn. Þvílíkt áfall að fá á sig mark manni fleiri eftir að hafa haldið hreinu í 27 mínútur gegn þessu sterka liði. 

26. mín: Staðan er 2:0 og Rúmenar voru rétt í þessu í nauðvörn. Þeir brutu af sér eina ferðina enn og Ísland spilar því manni fleiri næstu 2 mínúturnar. 

21. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Rúmenar misstu annan leikmann af velli og Íslendingar refsuðu um leið. Emil Alengård skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Robins og Stefáns Hrafnssonar.  Þetta eru heldur betur tíðindi svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

20. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland að loknum fyrsta leikhluta. Rúmenar misstu mann af velli þegar um mínúta var eftir af leikhlutann og Ísland byrjar því með fleiri menn á ísnum í upphafi annars leikhluta. Brynjar Þórðarson komst nálægt því að skora en skaut rétt framhjá markinu. Allt annað er að sjá til íslenska liðsins í dag en í gær. Hraðinn er meiri, sem og baráttan. Áræðnin hefur einnig aukist eftir að liðið komst yfir. Rúmenar eru slegnir yfir stöðu mála og mjög pirraðir.  

15. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Snorri Sigurbjörnsson fékk brottvísun en íslenska liðið stóð það af sér. Nú fékk einn Rúmeninn brottvísun og Íslendingar þurfa að nýta sér það og bæta við marki. Mun meiri hraði er í leik íslenska liðsins í dag en í gærkvöldi. Króatar í höllinni skemmta sér vel yfir stöðu mála enda Rúmenar þeirra helstu keppinautar.

10. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Ekki tókst Íslandi að skora manni fleiri en Birkir Árnason og Emil Alengård áttu báðir ágætar skottilraunir. Fyrstu tíu mínúturnar hafa gengið mjög vel og Rúmenar hafa varlað fengið almennilegt marktækifæri. Fyrstu tíu mínúturnar gengu einnig vel hjá Íslendingum í gær og því skulum við ekki hrósa happi of snemma.  Rúmenar geta verið fljótir að refsa.

7. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Rúmenar eru að auka hraðann í leiknum og ljóst að þeir verða erfiðir viðureignar. Rúmenar voru hins vegar að missa mann af velli í tveggja mínútna refsingu og næstu 2 mínútur ættu því að vera þægilegar fyrir Ísland. Nú er upplagt að láta kné fylgja kviði en Íslendingar voru ekki nógu beittir í stöðunni 5 á móti 4 í gær.

4. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Egill Þormóðsson stal pökknum snyrtilega fyrir aftan mark Rúmeníu og lagði hann út á Robin Hedström sem skoraði örugglega af stuttu færi. Óskabyrjun hjá Íslendingum  og nú sjáum við úr hverju Rúmenar eru gerðir en þeir ætluðu sér vafalaust að ná sér í þægilegt forskot í fyrsta leikhluta. 

Kl 14:10 Eins og í gær eru allir leikmenn Íslands klárir í slaginn. Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson fékk nokkuð þungt högg á úlnliðinn í leiknum í gær en er leikfær og úlnliðurinn óbrotinn.

Kl 14:00 Leikmenn liðanna eru á fullu að hita upp á ísnum. Eitthvað er verulega bogið við plötsnúðinn í Sportova-höllinni í Zagreb því hann er nýbúinn að spila „Til hamingju Ísland“ með Silvíu Nótt og er nú með „How do you like Iceland“ með Baggalúti í gangi. Ljóst er að íslensku leikmennirnir hafa haft gaman af þessu uppátæki þó þeir séu vanari því að hlusta á málmrokksslagara á borð við „Enter Sandmann“ til að koma sér í gírinn.

Lið Íslands:

Markverðir: 

Dennis Hedström

Ómar Skúlason

Varnarmenn:

Snorri Sigurbjörnsson

Birkir Árnason

Róbert Pálsson

Ingvar Þór Jónsson

Ingólfur Elíasson

Daniel Adel

Björn Jakobsson

Sóknarmenn:

Robin Hedström

Emil Alengård 

Brynjar Þórðarson

Andri Mikaelsson

Jón B. Gíslason

Gauti Þormóðsson

Matthías Máni Sigurðarson

Egill Þormóðsson

Ólafur Hrafn Björnsson

Stefán Hrafnsson

Sigurður Sigurðsson

Pétur Maack

Úlfar Andrésson
Emil Alengård skoraði annað markið gegn Rúmeníu.
Emil Alengård skoraði annað markið gegn Rúmeníu. mbl.is/Kristján Maack
Íslenska landsliðið.
Íslenska landsliðið. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert