Fyrsti sigur Íslands á Búlgaríu í íshokkí

Egill Þormóðsson, Brynjar Þórðarson og Emil Alengård gátu fagnað sigri …
Egill Þormóðsson, Brynjar Þórðarson og Emil Alengård gátu fagnað sigri á HM í dag. mbl.is/Kristján Maack

Ísland og Búlgaría áttust við í 2. deild heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Spartova-höllinni í Zagreb klukkan 11 að íslenskum tíma. Ísland sigraði 3:2 og var þetta fyrsti sigur Íslendinga á Búlgörum í A-landsleik í íshokkí. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Mörk Íslands: Ólafur Hrafn Björnsson, Egill Þormóðsson 2.

Stoðsendingar: Úlfar Andrésson, Pétur Maack, Birkir Árnason, Emil Alengård.

Maður leiksins hjá Íslandi: Emil Alengård.

60. mín: Leik lokið með 3:2 sigri Íslands og þeim fyrsta í mótinu.  Auk þess er þetta fyrsti sigur A-landsliðsins í íshokkí á Búlgaríu.

55. mín: Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Búlgarar hafa nú fimm mínútur til stefnu ef þeir ætla sér að ná einhverju út úr þessum leik.  Íslendingar hafa sótt mun meira eftir að Búlgarar skoruðu annað markið og eru líklegri til að bæta við fjórða markinu en Búlgarar að jafna. 

52. mín: Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Búlgarar fengu brottvísun en Íslendingum tókst ekki að nýta sér það. Emil átti hörkuskot en hitti ekki markið.

49. mín: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Daniel Aedel fékk brottvísun og Búlgarar voru ekki nema um 20 sekúndur að nýta sér það. Dennis varði ágæta skottilraun en Búlgarar fengu frákastið og skoruðu af stuttu færi. Nú verða Íslendingar að halda haus.

47. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Búlgarar skoruðu upp úr engu. Löng sending fram völlinn beint á sóknarmann þeirra sem slapp aleinn inn fyrir vörnina, lék laglega á Dennis í markinu og skoraði. Þessi sigur er ekki í höfn ennþá þó útlitið sé vissulega gott.

45. mín: Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Ekki var nóg með að Ísland héldi hreinu manni færri heldur var liðið hársbreidd frá því að bæta við fjórða markinu. Aldursforsetinn Sigurður Sveinn Sigurðsson stal pökknum og lagði hann á Andra Mikaelsson sem skaut í stöngina á marki Búlgaríu. Skömmu síðar eftir að Ísland var komið með fullt lið að nýju náði liðið góðri sókn en markvörður Búlgara varði frá Robin Hedström úr dauðafæri.

43. mín: Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Snorri Sigurbjörnsson var að fá sína aðra brottvísun sína í leiknum og við skulum vona að Búlgörum takist ekki að nýta sér það til að koma sér inn í leikinn.

40. mín: Staðan er 3:0 fyrir Ísland að loknum öðrum leikhluta. Búlgarar hljóta að vera fegnir að komast inn í búningsklefa því þessi leikhluti var ekki gæfulegur fyrir þá. Gaman var að sjá íslensku landsliðsmennina hrista af sér slenið með stæl eftir að hafa verið hreinlega slakir í fyrsta leikhlutanum. Eftirleikurinn hlýtur að verða auðveldur því Búlgararnir eru frekar þungir og verða væntanlega fyrr þreyttir en Íslendingarnir. Olaf Eller er einnig skynsamur hvað það varðar að hann nýtir vel breiddina í íslenska hópnum.

39. mín: Mark! Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Búlgarar virðast hafa misst móðinn og Íslendingar eru að nota tækifærið og ganga frá leiknum. Egill Þormóðsson skoraði með góðu skoti eftir stoðsendingu frá Emil Alengård. Annað mark Egils á þriggja mínútna kafla.

36. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Búlgarar misstu mann út af í kælingu og Íslendingar létu kné fylgja kviði. Fljótlega hamraði fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson pökkinn í þverslána á marki Búlgara. Um mínútu síðar lét Birkir Árnason vaða á markið af löngu færi og Egill Þormóðsson náði að taka pökkinn á lofti og stýra honum í netið.  Markvörður Búlgara var brjálaður út í dómarana og vildi meina að Egill hefði farið of hátt með kylfuna en hlutlausir sérfræðingar í blaðamannastúkunni frá Króatíu og Finnlandi eru ekki á sama máli.

27. mín Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Ólafur Hrafn Björnsson er búinn að brjóta ísinn. Eftir undirbúning Úlfars Andréssonar komst Pétur Maack í skotfæri en markvörðurinn varði en Ólafur fékk frákastið og skoraði örugglega af stuttu færi. Á 25. mínútu sluppu Íslendingar hins vegar vel þegar Búlgarar áttu stangarskot eftir ágæta sókn.

24. mín: Staðan er 0:0. Ísland komst vel frá því að vera manni fleiri. Eftir að liðið var fullskipað að nýju þá komst Ísland skyndilega í vænlega sókn þar sem Andri Mikaelsson lagði upp dauðafæri fyrir Ingólf Elíasson en hinn reyndi markvörður Búlgaríu varði vel.  

21. mín: Staðan er 0:0. Snorri Sigurbjörnsson var að fá fyrstu brottvísun Íslands í leiknum og nú þarf íslenska vörnin að standa sig. 

20. mín: Staðan er 0:0 að loknum fyrsta leikhluta. Búlgarar fengu stórhættulegt færi þegar nokkrar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Daniel Aedel tapaði þá pökknum á miðsvæðinu og Búlgararar komust í skyndusókn en Dennis Hedström var vandanum vaxinn í markinu. Íslenska liðinu virðist ganga mun verr að skora heldur en á HM í fyrra.  Þá skoraði liðið 16 mörk í leikjunum 5 en nú þegar mótið er tæplega hálfnað eru mörkin aðeins orðin 2. Vonandi verða Búlgararnir þreyttir þegar á líður leikinn og þá gætu opnast fleiri göt á vörn þeirra.

15. mín: Staðan er 0:0. Íslendingar fengu gott tækifæri þegar þeir komust 3 á móti 2 í skyndisókn. Egill Þormóðsson fékk pökkinn fyrir framan markið en Búlgurunum tókst að komast fyrir skotið.  Leikurinn er orðinn opnari og Búlgararnir hafa fært sig framar á völlinn.

10. mín: Staðan er 0:0. Aftur misstu Búlgarar mann út af en þurftu lítið að hafa fyrir því að halda marki sínu hreinu. Íslenska liðið er ekki sannfærandi í þessum fyrsta leikhluta og Búlgararnir eru klókir þó þeir séu hægir og þungir. Úlfar Andrésson átti hörkuskot á 10. mínútu en það fór beint á markvörðinn.

7. mín: Staðan er 0:0. Búlgarar hafa fengið eina brottvísun en tókst að standa það af sér án teljandi vandræða. Robin Hedström átti eina skottilraun en að öðru leyti var sóknarleikurinn hálf vandræðalegur þegar íslenska liðið var með fleiri menn á ísnum. Skömmu áður átti Jón B. Gíslason góða rispu og komst í ágætt færi en tókst ekki að nýta það.

3. mín: Staðan er 0:0. Nokkur langskot hafa verið reynd hjá leikmönnum beggja liða en ekkert hættulegt færi enn sem komið er. Íslensku leikmennirnir eru ákafir í upphafi leiks en hefur ekki tekist að ná almennilegum tökum á aðgerðum sínum.

Búlgarska liðið er talsvert ólíkt íslenska liðinu. Meðalaldurinn í íslenska liðinu er ekki hár en Búlgararnir eru hins vegar talsvert eldri og reyndari. Á móti kemur að þeir eru þyngri og ná ekki upp jafn miklum hraða í leik sínum og íslenska liðið. Helsta stjarnan Búlgara er markvörður liðsins en hann er 46 ára gamall og í toppformi. Hann varði hátt í hundrað skot í leiknum á móti Króatíu en sá leikur fór nánast alfarið fram á vallarhelmingi Búlgaríu. Króatískir áhorfendur klöppuðu honum lof í lófa hvað eftir annað. Sá kappi hefur keppt rúmlega tuttugu sinnum á HM. 

Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa gegn tveimur sterkuðu liðum riðilsins, Króatíu 0:9 og Rúmeníu 2:4. Búlgaría tapaði 2:17 fyrir Króatíu en sigraði Írland 6:0. Ísland hefur aldrei unnið lið Búlgaríu í íshokkí.

Egill Þormóðsson skoraði tvívegis á þriggja mínútna kafla í öðrum …
Egill Þormóðsson skoraði tvívegis á þriggja mínútna kafla í öðrum leikhluta. mbl.is/Kristján Maack
Ólafur Hrafn Björnsson kom Íslendingum á bragðið gegn Búlgaríu.
Ólafur Hrafn Björnsson kom Íslendingum á bragðið gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristján Maack
Danski landsliðsþjálfarinn Olaf Eller ásamt lærisveinum sínum í Króatíu.
Danski landsliðsþjálfarinn Olaf Eller ásamt lærisveinum sínum í Króatíu. mbl.is/Kristján Maack
Ingvar Þór Jónsson er fyrirliði Íslands.
Ingvar Þór Jónsson er fyrirliði Íslands. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert