Bronsverðlaun innsigluð með stæl

Andri Mikaelsson var valinn maður leiksins á móti Írum.
Andri Mikaelsson var valinn maður leiksins á móti Írum. mbl.is/Kristján Maack

Ísland og Írland áttust við í síðustu umferð 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Sportova - höllinni í Zagreb klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Íslendingar burstuðu Írana 14:0 en staðan var orðin 3:0 eftir þriggja mínútna leik. Með sigrinum tryggði Ísland sér 3. sætið en liðið vann þrjá leiki og tapaði tveimur. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Mörk Íslands: Andri Mikaelsson 3, Egill Þormóðsson 2, Gauti Þormóðsson 2, Emil Alengård, Birkir Árnason,  Matthías Máni Sigurðarson, Ólafur Hrafn Björnsson, Ingólfur Elíasson, Sigurður Sigurðsson og Daniel Aedel.

Stoðsendingar: Jón Benedikt Gíslason 4, Emil Alengård 3, Egill Þormóðsson 3, Stefán Hrafnsson 2, Birkir Árnason 2, Robin Hedström 2, Brynjar Þórðarson 1, Björn Jakobsson 1, Pétur Maack 1, Róbert Pálsson 1, Ingvar Þór Jónsson 1, Andri Mikaelsson 1, Matthías Máni Sigurðarson 1, Ólafur Hrafn Björnsson 1.

Maður leiksins hjá Íslandi: Andri Mikaelsson.

60. mín: Leik lokið með stórsigri Íslands 14:0 og bronsverðlaunin innsigluð með stæl. Ekki þarf að velta því fyrir sér hvort um íslenskt met sé að ræða því stærsti sigur íshokkílandsliðsins er mun stærri og leit dagsins ljós í 3. deild fyrir nokkrum árum.

59. mín: Mark! Staðan er 14:0 fyrir Ísland. Ólafur Hrafn Björnsson gaf stoðsendingu á Daniel Aedel sem þrumaði pökknum í netið frá bláu línunni og skoraði fyrsta mark sitt í keppninni. 

55. mín: Mark! Staðan er 13:0 fyrir Ísland. Aldursforsetinn Sigurður Sveinn Sigurðsson er búinn að skora sitt fyrsta mark í keppninni eftir undirbúning frá Matthíasi Mána Sigurðarsyni og Stefáni Hrafnssyni.

53. mín: Mark! Staðan er 12:0 fyrir Ísland. Gauti Þormóðsson skoraði fyrsta mark Íslands í síðasta leikhlutanum og sitt annað í leiknum. Markið kom eftir frábæra rispu frá Emil Alengård en maður hefur á tilfinningunni að hann geti splundrað vörn Írlands þegar honum hentar.

49. mín: Staðan er 11:0 fyrir Ísland. Egill Þormóðsson lét írska markvörðinn verja frá sér víti sem dæmt var eftir að Egill var rændur dauðafæri eftir frábæran undirbúning Emils.

40. mín: Staðan er 11:0 fyrir Ísland að loknum öðrum leikhluta. Íslendingar ætla sér greinilega að landa bronsverðlaununum með stæl. 

40. mín: Mark! Staðan er 11:0 fyrir Ísland. Írar misstu mann af svelli og hinn 17 ára gamli varnarmaður Ingólfur Elíasson þrumaði pökknum í netið hjá Írum eftir að Andri Mikaelsson hitti ekki pökkinn eftir sendingu frá Jóni B. Gíslasyni. 

36. mín: Mark! Staðan er 10:0 fyrir Ísland. Andri Mikaelsson er búinn að koma Íslandi í tveggja stafa tölu og er kominn með þrennu. Robin Hedström gaf á Jón B. Gíslason sem kom pökknum út á Andra sem skaut í gegnum klofið á markverðinum.

27. mín: Mark! Staðan er 9:0 fyrir Ísland. Gauti Þormóðsson er kominn á blað og skoraði sitt fyrsta mark í mótinu.  Fékk pökkinn fyrir aftan markið og lék fram fyrir markið og laumaði pökknum í netið. Egill Þormóðsson og Birkir Árnason áttu stoðsendingarnar.

24. mín: Mark! Staðan er 8:0. Íslendingar voru manni fleiri og skoruðu. Egill Þormóðsson skoraði en stoðsendingar áttu Emil Alengård og fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson.

23. mín: Mark! Staðan er 7:0 fyrir Ísland. Andri Mikaelsson skoraði sitt annað mark í leiknum eftir undirbúning Róberts Pálssonar og Jóns B. Gíslasonar.

20. mín: Staðan er 6:0 fyrir Ísland að loknum fyrsta leikhluta. Þetta gæti orðið langur dagur hjá Írunum eins og sumir aðrir hjá þeim hér í Zagreb. 

19. mín: Mark! Staðan er 6:0 fyrir Ísland.  Ólafur Hrafn Björnsson skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Péturs Maack og Birkis Árnasonar. Markvörður Íra virtist hafa ráðið við skotið en pökkurinn lak undir hanskann og inn fyrir marklínuna.

16. mín: Mark! Staðan er 5:0 fyrir Ísland. Eftir skyndisókn skoraði Matthías Máni Sigurðarson eftir stoðsendingu frá Stefáni Hrafnssyni. Fyrsta mark Matthíasar í mótinu.

14. mín: Mark! Staðan er 4:0 fyrir Ísland. Emil Alengård fékk pökkinn frá Birni Jakobssyni og skapaði usla í vörn Íra en fá honum barst pökkurinn á opið svæði fyrir miðju marki og þar kom Egill Þormóðsson á ferðinni og skoraði með föstu skoti. Egill hefur þá skorað fimm mörk í mótinu og í þremur leikjum í röð.

3. mín: Mark! Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Írar misstu mann í refsingu og þá var ekki að sökum að spyrja. Brynjar Þórðarson fékk pökkinn frá Jóni Benedikt Gíslasyni og gaf fyrir markið á Andra Mikaelsson sem skoraði af stuttu færi sitt annað mark í mótinu.

2. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Varnarmaðurinn Birkir Árnason er kominn á blað í markaskorun og staðan orðin 2:0 eftir rúma mínútu. Egill Þormóðsson og Robin Hedström fengu skráðar á sig stoðsendingar en Birkir fékk frákastið eftir skot Robins og skoraði auðveldlega. Mér sýnist að strákarnir ætli að láta mig hafa fyrir hlutunum í þessari síðustu lýsingu frá Króatíu.

1. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Emil Alengård var ekki nema 12 sekúndur að skora! Emil fékk boltann frá Agli Þormóðssyni, lék á varnarmann og þrumaði pökknum neðst í fjærhornið. Ekki hef ég orðið var við að nokkur leikmaður hafi verið sneggri að skora í mótinu en Rúmenar voru 25 sekúndur að skora á móti Írum en Króatar um 3 mínútur.

Írland hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum og er liðið þegar fallið. Sigur á móti Íslandi getur ekki bjargað þeim því þá eru þeir með jafn mörg stig og Búlgaría en falla á innbyrðisviðureign. Búlgaría tapaði fyrir Kína fyrr í dag 6:12 en í kvöld eigast við Króatía og Rúmenía í úrslitaleik um hvort liðið fer upp í 1. deild.

Daniel Aedel gleymir sjaldnast baráttunni upp á hótelherbergi.
Daniel Aedel gleymir sjaldnast baráttunni upp á hótelherbergi. mbl.is/Kristján Maack
Gauti Þormóðsson fann netmöskvana gegn Írum.
Gauti Þormóðsson fann netmöskvana gegn Írum. mbl.is/Kristján Maack
Ingólfur Elíasson hefur staðið vaktina í vörninni með prýði í …
Ingólfur Elíasson hefur staðið vaktina í vörninni með prýði í mótinu og skoraði á móti Írum. mbl.is/Kristján Maack
Matthías Máni Sigurðarson skoraði sitt fyrsta mark á HM gegn …
Matthías Máni Sigurðarson skoraði sitt fyrsta mark á HM gegn Írum. mbl.is/Kristján Maack
Birkir Árnason er búinn að skora gegn Írum en Dennis …
Birkir Árnason er búinn að skora gegn Írum en Dennis Hedström hefur átt náðugan dag. mbl.is/Kristján Maack
Emil Alengård snjallasti íshokkímaður Íslands hefur lagt upp fjögur mörk …
Emil Alengård snjallasti íshokkímaður Íslands hefur lagt upp fjögur mörk fyrir samherja sína í Króatíu. mbl.is/Kristján Maack
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert