Gauti: Fagmannleg afgreiðsla

Gauti Þormóðsson fann netmöskvana gegn Írum.
Gauti Þormóðsson fann netmöskvana gegn Írum. mbl.is/Kristján Maack

Gauti Þormóðsson sagði 14:0 stórsigurinn á Írlandi á HM í Króatíu í dag hafa verið fagmannlega afgreiðslu og Gauti var sáttur við leik íslenska liðsins í keppninni.

Ísland hafnaði í 3. sæti eins og í Eistlandi í fyrra sem er jöfnun á besta árangri landsliðsins. Ísland tapaði fyrstu tveimur leikjunum á móti Króatíu og Rúmeníu en vann þrjá í röð á móti Búlgaríu, Kína og Írlandi.

„Þetta var fagmannlega afgreitt og fínn endir á góðu móti,“ sagði Gauti sem skoraði tvívegis í leiknum en hafði fram að því ekki átt þátt í neinu marki Íslands í keppninni. „Þetta hefur verið frekar rólegt hjá mér en þetta kom í dag. Það er ágætt að koma sér á blað fyrir tölfræðina,“ sagði Gauti léttur þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum.

Gauti sagðist ekki geta verið annað en sáttur við árangur liðsins þegar bronsverðlaunin væru í höfn. „Við vorum náttúrlega sorglega nálægt því að stela sigri á móti Rúmenum. Að öðru leyti held ég að við höfum náð öllu sem við vildum þó svo tapið í fyrsta leiknum hafi verið leiðinlega stórt. Á heildina litið held ég að maður geti ekki verið annað en sáttur við niðurstöðuna."

Gauti tekur undir það að íslenska liðið sé ávallt að færast nær bestu þjóðunum í 2. deild. „Á góðum degi getum við keppt við öll þessi lið í 2. deild en okkur vantar kannski smá stöðugleika og suma leikmenn skortir leikreynslu. Við spilum ekki nema um 20 leiki á ári á Íslandi á meðan Rúmenarnir spila um 80 leiki á ári sem er fjögur tímabil hjá okkur,“ sagði Gauti Þormóðsson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert