Phelps fór yfir 100 kílóin

Michael Phelps á nóg af verðlaunum.
Michael Phelps á nóg af verðlaunum. AFP

Bandaríkjamaðurinn Michael Phelps, besti sundmaður síðari ára og sigursælasti keppandi allra tíma á Ólympíuleikum, kveðst hafa verið orðinn alltof þungur og það hafi verið aðalástæðan fyrir því að hann ákvað að hefja keppni á ný.

Phelps, sem er 28 ára gamall, keppir í dag á Mesa Grand Prix mótinu í Mesa í Arizona en hann hætti eftir Ólympíuleikana í London fyrir tveimur árum þar sem vann fern gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun og var þar með kominn með 22 Ólympíuverðlaun samanlagt.

„Aðalmálið fyrir mig var að komast í form á nýjan leik. Þegar ég var þyngstur var ég orðinn 102 kíló en ég var 85 kíló þegar ég keppti í London, þannig ég hafði bætt á mig ansi hratt. Ég vildi sjá hversu miklu ég gæti náð af mér og hve langt ég gæti náð," sagði Phelps við fréttamenn en hann keppir í 100 metra flugsundi í Mesa í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert