Víðavangshlaup ÍR í 99. skipti

Frá Víðavangshlaupi ÍR.
Frá Víðavangshlaupi ÍR. Ljósmynd/Torfi Leifsson

Víðavangshlaup ÍR fer fram í dag eins og ávallt á sumardaginn fyrsta. Metþáttta er í hlaupinu. Þegar forskráningu lauk voru 485 skráðir til leiks.

Mesti fjöldi sem hlaupið hefur í Víðavangshlaupi til þessa eru 465 en það var árið 2010. Þá var einstaklega gott veður á hlaupdag eins og stefnir í núna.

ÍR-ingar hafa fagnað sumri 99. ár í röð með því að halda Víðavangshlaup ÍR og hlaupið er elsta hlaup landsins og með elstu almenningshlaupum í Evrópu. Aldrei hefur fallið úr hlaup og er Víðavangshlaup ÍR einn af þeim íþróttaviðburðum sem eiga sér lengsta samfellda sögu hér á landi. Aðeins Íslandsmótið í knattspyrnu hefur verið haldið lengur samfellt.

Hlaupið markar upphaf Powerade hlauparaðarinnar sem lýkur með Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Meistaramót Íslands í 5km götuhlaupi fer einnig fram samhliða hlaupinu.

Hlaupið er 5 km langt og verður ræst frá Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 12:00. Hlaupið er umhverfis og í nágrenni við Tjörnina. Enn er hægt að skrá sig í hlaupið en það getur fólk gert í Ráðhúsi Reykjavíkur frá kl. 10:30 og þar til 15 mínútum fyrir hlaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert