Aníta komst í úrslitin í Eugene

Aníta Hinriksdóttir var rétt í þessu að koma í mark í undanúrslitum 800 metra hlaups kvenna á heimsmeistaramóti 19 ára og yngri í frjálsíþróttum í Eugene í Bandaríkjunum. Aníta kom í mark á tímanum 2:04,99 mínútum.

Það hellirigndi þegar keppendur fóru af stað. Aníta varð strax með fremstu hlaupurum en þær voru þrjár sterkari á endasprettinum og Aníta varð því fjórða. Fyrst í mark var Sahily Diago frá Kúbu á 2:03,60 mínútum.

Aníta átti besta tímann inn í undanúrslitin, en hún hljóp í undanrásum í gær á tímanum 2:03,41 mínútu. Þrjár fyrstu í hvorum undanúrslitariðli komast í úrslit og svo tvær til viðbótar með bestu tímana. Aníta var ein af þeim og komst því áfram í úrslitahlaupið og var tími hennar sá sjötti besti í undanúrslitum.

Úrslitin fara svo fram aðfaranótt föstudags klukkan 3.00 að íslenskum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert