Ein með betri tíma en Aníta í riðli kvöldsins

Aníta Hinriksdóttir hleypur í undanúrslitum 800 m hlaups kvenna í …
Aníta Hinriksdóttir hleypur í undanúrslitum 800 m hlaups kvenna í HM í Eugene í kvöld. Ljósmynd/Gunnlaugur Júlíusson

Aníta Hinriksdóttir keppir í undanúrslitum 800 metra hlaups kvenna í heimsmeistaramóti unglinga 19 ára og yngri í frjálsíþróttum í kvöld í Eugene, Oregon í Bandaríkjunum. Aníta verður í fyrri undanúrslitariðlinum sem hefst klukkan 20.00 að íslenskum tíma.

Aníta hljóp á besta tímanum í undanrásunum í gær, 2:0341 mín., en í riðli hennar í kvöld er þó einn keppandi sem hefur hlaupið 800 metra á betri tíma en Aníta þó svo það hafi ekki gerst í undanrásunum í gær. Sahily Diago frá Kúbu hefur hlaupið á 1:57,74 mín. í ár en Aníta á best 2:01,81 mín. í ár og 2:00,49 mín. er besti tími Anítu frá upphafi.

Diago átti fimmta besta tímann í undanrásunum í gær þegar hún kom önnur í mark í fjórða og síðasta riðlinum á 2:04,60 mín.

Aníta hleypur á þriðju braut fyrstu 100 metrana í undanúrslitunum í kvöld, en þrjár fyrstu í hvorum undanúrslitariðli komast í úrslit og svo tvær til viðbótar með bestu tímana.

Miðað við þá tíma sem keppendur eru skráðir með inn á mótið, hvernig undanrásirnar voru í gær og í hve góðu formi Aníta er, þá ætti Aníta að komast nokkuð auðveldlega upp úr undanúrslitunum í kvöld, svo framarlega sem engin óhöpp verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert