Þarf betri einbeitingu

Aníta Hinriksdóttir á fullri ferð í hlaupinu í gærkvöld.
Aníta Hinriksdóttir á fullri ferð í hlaupinu í gærkvöld. AFP

„Hún virtist eiginlega frjósa þegar þær fóru þrjár fram úr henni á lokasprettinum. Hún náði ekki að halda einbeitingunni og ég hef aldrei séð það áður hjá henni, það er mjög óvenjulegt,“ sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu Hinriksdóttur, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi skömmu eftir að hún tryggði sér sæti í úrslitum í 800 metra hlaupi kvenna á HM 19 ára og yngri í Eugene í Bandaríkjunum. Aníta átti besta tímann inn í undanúrslitin en var fjórða í mark í sínum riðli í gær og átti sjötta besta tímann, 2:04,99 mínútur, og komst því áfram.

„Þetta er í fyrsta sinn sem hún á svona slæman dag á stóru móti. Auðvitað getur það gerst en það er okkar að finna út hvað olli, hún er ekkert meidd eða neitt. Venjulega er hún mjög þreytt þegar hún keyrir sig út í gegnum endamarkið en það var allt önnur tilfinning núna, hún var ekki eins og vanalega þegar hún klárar hlaup. Hún var ósátt við sjálfa sig,“ sagði Gunnar.

Úrslitahlaupið fer fram aðfaranótt föstudags klukkan 03.00 að íslenskum tíma og Gunnar segir að helst þurfi að vinna í einbeitingunni fyrir það. „Við þurfum að vinna úr þessu á jákvæðan hátt en ekki svekkja sig yfir þessu. Hún fær tækifæri til að sýna hvað hún getur í úrslitunum og við reynum að einblína frekar á skipulagið okkar í stað þess að hún hugsi um hvað hinir keppendurnir eru að gera. Hún á alveg að standa jafnfætis þessum stelpum og ef hún heldur sínu skipulagi þá verður hún mjög framarlega í úrslitunum,“ sagði Gunnar Páll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert