Matthildur Ylfa í 6. sæti á EM

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir er Íslandsmethafi í langstökki.
Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir er Íslandsmethafi í langstökki. mbl.is/Eggert

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir úr ÍFR varð í sjötta og næstneðsta sæti í langstökki á Evrópumeistaramóti fatlaðra í frjálsum íþróttum í Swansea í Wales í morgun.

Matthildur, sem keppir í T37 flokki hreyfihamlaðra, stökk lengst 3,96 metra en besta stökk hennar í ár er 4,08 metrar. Íslandsmet hennar frá árinu 2012 er 4,28 metrar.

Matthildur náði lengsta stökki sínu í fyrstu tilraun en stökkserían var sem hér segir: 3,96 - 3,38 - ógilt - 3,86 - 3,69 - 1,73.

Hin rússneska Anna Sapozhnikova fór með sigur af hólmi á nýju Evrópumeti en hún stökk 4,46 metra. Landa hennar Zhanna Fekolina kom næst með 4,42 metra stökk og í 3. sæti varði Franziska Liebhardt frá Þýskalandi með 4,34 metra stökk.

Síðar í dag, eða kl. 17.12, keppir Arnar Helgi Lárusson í 200 metra hjólastólakappakstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert