Tvö heimsmet féllu í Njarðvík

Auðunn Jónsson varð Norðurlandameistari í kraftlyftingum í 120 kg flokki.
Auðunn Jónsson varð Norðurlandameistari í kraftlyftingum í 120 kg flokki.

Norðurlandamótið í kraftlyftingum hófst í Ljónagryfjunni, íþróttahúsinu í Njarðvík í gær, og á fyrri keppnisdegi mótsins féllu strax tvö heimsmet. Callie Nelson frá Svíþjóð setti drengjamet í bekkpressu þegar hann lyfti 290 kílóum og Finninn Kenneth Sandvik setti svo heimsmet í bekkpressu í +120 kg flokki þegar hann lyfti 371 kílói. 

Ein íslensk kona varð Norðurlandameistari í gær. Það var Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir í -57 kílóa flokki. Hún tók mest 150 kíló í hnébeygju, 87,5 kíló í bekkpressu og 162,5 kíló í réttstöðulyftu og lyfti því samtals 400,0 kílóum sem tryggði henni Norðurlandameistaratitilinn í hennar flokki.

Tveir íslenskir karlmenn urðu svo Norðurlandameistarar í samanlögðu. Auðunn Jónsson vann í 120 kílóa flokki. Hann tók 360 kíló í hnébeygju, 250 kíló í bekkpressu og 335 kíló í réttstöðulyftu og lyfti því samtals 945 kílóum.

Í 74 kílóa flokki vann svo Sindri Freyr Arnarsson. Hann tók 207,5 kíló í hnébeygju, 165 kíló í bekkpressu og 212,5 kíló í réttstöðulyftu eða samtals 585 kíló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert