Tvö Íslandsmet í viðbót hjá Hrafnhildi

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Golli

Sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH, heldur uppteknum hætti í lauginni eftir frábæran árangur á Evrópumótinu í 50 metra laug í Berlín í síðustu viku. Í gær setti hún svo Íslandsmet í 100 metra bringusundi í 25 metra laug á heimsbikarmóti í Doha í Katar og í dag bætti hún við Íslandsmetum bæði í 50 metra bringusundi og 200 metra bringusundi í 25 metra laug.

Hrafnhildur synti á 30,67 sekúndum í úrslitum í 50 metra bringusundinu í Doha í dag sem skilaði henni þriðja sætinu. Þar með bætti hún eigið Íslandsmet frá árinu 2010 um 15 hundraðshluta úr sekúndu, því gamla metið var 30,82 sek.

Hrafnhildur nældi sér svo í silfur þegar hún endaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi í dag þar sem hún synti á 2:23,70 mín. og bætti um leið Íslandsmet sitt í greininni í 25 metra laug frá árinu 2010 um nærri hálfa sekúndu, en fyrra met hennar var 2:24,15 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert