Sló heimsmetið í sleggjukasti

Anita Wlodarczyk, Evrópumeistari og heimsmethafi kvenna í sleggjukasti.
Anita Wlodarczyk, Evrópumeistari og heimsmethafi kvenna í sleggjukasti. AFP

Pólverjinn Anita Wlodarczyk sló á sunnudag eigið heimsmet í sleggjukasti kvenna þegar hún kastaði sleggjunni 79,58 metra á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti sem haldið var á Ólympíuleikvanginum í Berlín.

Wlodarczyk sem varð Evrópumeistari í greininni í Zürich í ágúst bætti þar með heimsmet Þjóðverjans Betty Heidler frá árinu 2011 sem var 79,42 metrar, um 16 sentimetra, en heimsmetið kom í öðru kasti Wlodarczyk á sunnudag.

Kastsería Wlodarczyk var afar góð í Berlín á sunnudag eða 75,29 m - 79,58 m - 78,46 m - 79,04 m - 78,64 m - 77,94 m og er þetta glæsilegasta kastsería konu í sleggjukasti frá upphafi.

Anita Wlodarczyk er 29 ára og hefur nú þrisvar sett heimsmet í sleggjukasti, fyrst árið 2009, einnig í Berlín en þá kastaði hún 77,96 metra. Hún bætti svo metið ári síðar í Bydgoszcz í Póllandi þegar hún kastaði 78,30 metra en Betty Heidler bætti það svo 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert