Draumatímabil varð að veruleika

Tékkneski spjótkastarinn Barbora Spotáková segist aðeins hafa þorað að láta sig dreyma um að ná þeim árangri sem hún gerði á nýafstöðnu keppnistímabili, eftir að hafa eignast soninn Janek í maí á síðasta ári.

Spotáková, sem er heimsmethafi í spjótkasti og gullverðlaunahafi á Ólympíuleikum og HM, var fljót að komast aftur í gang eftir barnsburðinn. Í ár varð hún svo Evrópumeistari í Zürich og fagnaði sigri á Demantamótaröðinni og í álfubikarnum.

„Ef einhver hefði sagt mér fyrir tímabilið að ég gæti afrekað þetta þá hefði ég nú ekki verið viss um það. Þegar ég var ólétt vonaðist ég til að komast aftur í gott stand, en ég bjóst ekki við að verða svona sterk. Þetta var tímabil sem ég gat aðeins látið mig dreyma um,“ sagði Spotáková.

Í jafnflókinni tæknigrein og spjótkast er þá er það mögnuð staðreynd að Spotáková skuli aðeins hafa misst af gullverðlaunum á einu móti á árinu, þegar hún varð í 2. sæti á Demantamóti í Birmingham á eftir Elizabeth Gleadle frá Kanada.

Spotáková horfir vitaskuld til Ólympíuleikanna í Ríó 2016 og er strax farin að huga að næsta keppnistímabili. Þar vonast hún til að endurheimta heimsmeistaratitilinn eftir að hafa misst af HM í Moskvu í fyrra.

„Í hreinskilni sagt þá er ekkert sérstakt sem drífur mig áfram en í nóvember byrja ég að æfa. Ég mun aftur leggja hart að mér og ég ætla mér alltaf sigur,“ sagði Spotáková.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert