Íslendingar unnu til sjö verðlauna

Íslendingar unnu til sjö verðlauna á fyrsta smáþjóðamótinu í karate sem haldið var í Lúxemborg í gær. Sjö þjóðir sendu keppendur til leiks og voru keppendur samtals 240. Telma Rut Frímannsdóttir náði bestum árangri Íslendinga á mótinu, en hún vann til silfuerverðlauna í kumite í opnum flokki kvenna. Þessi árangur Telmu gefur góðar vonir fyrir næsta verkefni hennar sem verður Heimsmeistaramótið í Þýskalandi í byrjun nóvember. 

Sex Íslendingar unnu svo til bronsverðlauna á mótinu. Svana Katla Þorsteinsdóttir vann brons í kata fullorðinna. Jóhannes Gauti Óttarsson fékk brons í kumite í -75 kg flokki og Edda Kristín Óttarsdóttir í kumite unglinga í -54 kg flokki. Katrín Ingunn Björnsdóttir og Laufey Lind Sigþórsdóttir unnu svo til bronsverðlauna í +54 kg flokki unglinga.

Þá vann eitt íslensk lið einnig til bronsverðlauna. Edda, Katrín og Laufey Lind unnu brons í liðakeppni unglinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert